Vegir liggja til allra átta

Fólk spyr mig oft hvernig þetta og hitt hafi komið til í tengslum við sýningar mínar úti í heimi. Ég var búin að vera virk í myndsköpun og haldið nokkrar sýningar til marga ára áður en ég fór í mína útrás.
Nú ætla ég að rekja slóðir mínar.

1993
Árið 1993 kom sænsk kona hingað til að sýna myndverk sín á vegum Norræna hússins. Ég bauð henni að heimsækja mig á vinnustofuna og í kjölfarið bauð hún mér að sýna í sínu galleríi á Visingsö, eyju í Vättern fyrir utan Jönköping. Á meðan íslenska þjóðin var á þjóðvegahátíð á leið til Þingvalla var ég ásamt manni og tveim sonum á leið frá Suður-Frakklandi til Visingsö.

1997
Árið 1997 reyndi ég fyrir mér með sýningu í Finnlandi. Þeir voru að undirbúa Íslandsviku í Vasa og var bent á mig. Í kjölfarið var mér boðið að halda einkasýningu í Vasa á Íslandsvikunni auk þess að halda nokkur erindi á sænskumælandi svæði við Vasa.

2001
Árið 2001 var mikið viðtal og myndir af verkum mínum í norsku tímariti. Í kjölfarið var mér boðið að vera fulltrúi Íslands á sýningu Nordic Art Quilt í Houston í Texas. Þrjú verk eftir mig fóru þangað.
Sama ár var haft samband við bónda minn frá Noregi um að þýða ljóð eftir Lars Saabye Christensen um Golfstrauminn. Þetta var í tengslum við menningarsamstarf Austurlands og N-Noregs. Í kjölfarið átti verkefnastjórnin leið til Íslands vegna nokkurra erinda og við kynntumst vel þar sem bóndi minn var að þýða meira fyrir samstarfið.

2002
2002 barst mér bréf frá Ungverjalandi um að taka þátt í alþjóðlegri sýningu með ungverskt blue print efni sem þema. Ég þáði boðið og 1. maí 2003 lentum við í Búdapest.
Sýningin var haldin á tveimur stöðum í Ungverjalandi uns hún fór til Frakklands. Ég spurði hvernig var haft upp á mér, það var gegnum Finnland vegna sýningar minnar þar.

2003-04
Árin 2003 og 4 var ég valin inn á farandsýningu til fjögurra ríkja í Bandaríkjunum.
2004 fékk ég boð frá Nagoya í Japan um að taka þátt á alþjóðlegri sýningu í mai 2005 sem var haldin í samstarfi við World Expo heimssýninguna). Mér var boðin gisting í fjórar nætur auk þess að taka þátt í opnunarhátíðinni.
Boðið til Japans kom vegna sýningarskrárinnar frá ungversku sýningin þar sem við og verk okkar voru kynnt.

2004
Eitt skipti árið 2002 sá verkefnastjórinn verk eftir mig sem ég var að undirbúa fyrir sýningu í Ráðhúsinu. Hann vildi endilega fá verkin mín til Norður-Noregs og bað mig senda möppu til menningarnefndar í Sortland og nágrenni.
Ég gerði það og í kjölfarið var mér boðið að sýna bæði í Øksnes og á Sortland í mars 2004.
Í sömu vikunni opnaði ég tvær sýningar. Auk þess tók ég á móti skólabörnum allan daginn í heila viku, samtals 500 börn frá leikskólaaldri og upp í 16 ára.

2005
2005 hafði ég samband við European Art Quilt Foundation til að forvitnast um samtökin. Í kjölfarið var ég beðin um að senda myndir af verkum mínum og svo var mér boðið að taka þátt í sérsýningu EAQF á Festival of Quilts í Birmingham i ágúst 2005.

2006
Ári seinna var ég valin af dómnefnd til að taka þátt í farandsýningunni EAQ IV um Evrópu og Bandaríkin.

2008
Veturinn 2006-07 fékk ég upphringingu frá galleríeiganda á Kalvåg í Vestur-Noregi. Kona frá Sortland hafði bent henni á mig. Ég mælti mér mót við vestnorsku konuna og sýndi henni Reykjavik í nokkra klukkutima þegar hún var hér í stuttu stoppi.
Hún kom aftur með manninum sínum næsta haust og heimsótti mig á vinnustofuna.
Um veturinn kom svo boð frá henni um að vera með í afmælissýningu Galleri Frøja á Kalvåg 2008. Þemað er Fuglar í fókus og var ég með fimm verk á sýningunni.
Ég gríp alltaf gæsina enda er ég mikill fuglavinur.2009
Ég hef líka verið valin á farandsýninguna EAQ V sem opnaði í Birmingham í ágúst 2009 og ferðaðist um Evrópu, Kóreu og Bandaríkin í tvö ár.

Síðasta stóra einkasýningin mín var í Ráðhúsinu haustið 2009 en ég greindist með krabbamein rétt eftir sýningarlok. Meðferðum við tveimur krabbameinum lauk haustið 2010 og síðan hef ég verið að byggja mig upp á ný. Ég dvaldi í vinnustofu í Marseille og í Berlin, er með í galleri Korpúlfstaða og tók þátt í samsýningum Textilfélagsins á Akureyri og Korpúlfsstöðum.

2012
Tvö verk á farandsýningu í Noregi.

2013
Ég er komin með nýja vinnustofu að Súðavogi 3, 2. hæð, í gamla Húsasmiðjuhúsinu þar.

2014
Bý nú í Danmörku og hyggst vinna þar og njóta lífsins á næstunni.

Klippt á borða í Nagoya.